Þjóðmál efna til glæsilegs þjóðhátíðarmóts dagana 16. og 17. júní 2026.
Mótið fer fram á tveimur golfvöllum á landareign hins fræga herragarðs, Carton House á Írlandi. Vellirnir eru fyrir löngu orðnir heimsþekktir enda hannaðir af goðsögnum golfheimsins, Colin Montgomerie og Mark O‘Meara. Eru þeir kenndir við hönnuði sína. Gjörólíkir þótt þeir liggi á sömu landareigninni.
Þátttakendur mæta til leiks þann 15. Júní og verður tekið á móti hópnum með bjórkvöldi á Carriage House. Ræst verður út á völlunum tveimur að morgni 16. júní og leika þátttakendur báða vellina en sitthvorn daginn.
Hápunktur mótsins verður svo sannkallað þjóðhátíðargolf á 17. júní og munu þátttakendur fá tækifæri til þess að hylla ættjörðina og lýðveldið með viðeigandi hætti að því tilefni. Leikinn verður tvímenningur, svokallaður betri bolti.
Mótinu lýkur með galakvöldverði í glæsilegum salarkynnum að kvöldi 17. júní og verður þar skálað fyrir lýðveldinu Íslandi. Minni Íslands verður flutt og gleði og glaumur við völd líkt og á öðrum samkomum Þjóðmála.
Carton House státar af glæsilegu fimm stjörnu hóteli, Michelin-veitingastað, heilsulind, líkamsræktarstöð auk glæsilegra salarkynna þar sem njóta má matar og drykkjar af ólíku tagi. Á herragarðinum er sérstakt viskísmökkunarherbergi, annað sem helgað er léttvínum vítt og breitt frá öllum heimsins hornum.
Það verður því nóg að bíta og brenna á þessu glæsilega móti.